Eldri fréttir
 
 
 
 
FRÉTTIR

16. apríl 2004

Viðtal sem birtist í tímaritinu Við

Hver er Snorri Ásmundsson?

Hann er stórhuga, jákvæður og bjartsýnn myndlistarmaður og forsetaframbjóðandi.

Hverjir eru þínir fjölskylduhagir? Áttu erlenda konu til þess að flagga á Bessastöðum?

Ég lifi heilbrigðu bóheimalífi og ég bý einn, en ég er í góðu sambandi við dóttur mína og barnsmóður. Erlendar konur eru margar ágætar og álitlegar, en sú sem ég hitti oftast er vinkona mín Dorrit Moussaieff og ég hef mikið álit á henni.

Af hverju forsetaframboð?

Ég ákvað þetta sem barn og er því að láta gamlan draum rætast. Ég komst að því að ég þyrfti að vera 35 ára gamall til að verða forseti og ég hef því beðið lengi eftir þessu tækifæri. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að láta drauma okkar rætast.
Auðvitað tel ég mig eiga erindi á Bessastaði og mun að öllum líkindum blómstra þar.
Þetta þýðir fjárhagslega launahækkun fyrir mig og andlega launhækkun fyrir þjóðina.

Nú hefur heyrst að þú getir ekki látið verða að framboðinu því þú sért ekki með hreint sakavottorð er eitthvað til í því?

Ég er með hreint sakavottorð. Sem betur fer lifum við í samfélagi þar sem hægt er að kaupa aflátsbréf ef á bjátar. Annars er ég hissa á dræmri sölu miðað við hversu syndug við öll erum.

Önnur saga segir að þú hafir á þinum yngri árum skemmi þér ótæpilega og farið illa með vín er það ekki þannig með okkur öll?

Jú er það ekki? Við Íslendingar erum drykkfelld þjóð og alkóhólisminn hefur líklega gert skaða á öllum heimilum á landinu. Mér auðnaðist að sjá lausn í því að gefast upp fyrir bakkusi og lifa heilbrigðu lifi. Það fellst ótrúlegur sigur í slíkri uppgjöf.

Hver eru þín helstu baráttumál?

Eins og ég hef oft sagt þá hefur hefur mér stundum fundist náttúruauðlindir þessa lands verið teknar fram fyrir mannauðinn sem hér býr. Það þykir mér miður því við Íslendingar erum ríkir af alls kyns hæfileikum sem enn hafa ekki verið virkjaðir. Það þarf að vekja upp þjóðina og breyta hugarfari hennar, losa hana úr viðjum amerískrar neyslumenningar. Fá þjóðina til að standa með sjálfri sér og lifa eftir upprunalegum og náttúrulegum hefðum þar sem rómantíkin ræður ríkjum.
Ég vil auðga tilveru landsmanna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Er þetta ekki bara grín?

Þetta er sú spurning og stundum sú fullyrðing sem mér þykir bera vott um mikla þröngsýni og dómhörku. En mér finnst að lífið eigi að vera skemmtilegt og kannski nota ég óhefðbundnar aðferðir sem hefta árangur, en það kemur í ljós. Fólk sem vill afgreiða framboð mitt sem grínframboð virðist að mínu mati skorta víðsýni.


Hverjir yrðu fyrstir til að fá fálkaorðuna eftir komu þína á Bessastaði?

Stefán Tryggvi Brynjarsson, Dorrit Mossajeff, Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson, Hrafn Jökulsson, Elísabet Ólafsdóttir, Ég sjálfur, mamma, systkini mín og vinir og allir mínir kjósendur.

Kemur þú til með að leyfa gæsaveiði í túninu við Bessastaði?

Er hún bönnuð?

Hvað kemur til með að breytast ef þú kemst á Bessastaði?

Tilvera þjóðarinnar myndi breytast heilmikið og tilvera mín auðvitað líka. Íslendingar fengju öryggisventil sem kallar ekki allt ömmu sína. Ég myndi verða ómyrkur í máli ef mér yrði ofboðið. Ég kem ekki úr klafa stjórnkerfis né viðskipta og hef því ekki sérstakra hagsmuna þar að gæta. Aðilar sem leika sér framtíðarhorfur fólks á matadorborði þyrftu að vanda sig því annars fengju þeir á baukinn.

Nú hlýtur kosningabarátta sem þessi að vera gríðarlega kostnaðarsöm. Hver borgar brúsann?

Ég er myndlistamaður og til að drýgja tekjur mínar vinn ég við skúringar, en ég hef gert nokkrum kaupsýslumönnum tilboð sem þeir ættu ekki að hafna.

Af hverju ætti þjóðin að kjósa þig forseta?

Ég er forsetaefni en ég hef mína kosti og galla eins og aðrir. Á þessum tímamótum yrði það mjög hollt fyrir þjóðina að fá mig sem forseta.

© Snorri Asmundsson
Kosningasjóður. Reikningsnr.: 303-26-77777 Kt: 131166-4199